top of page
FB-header-Reykjavik.jpg

FYRIR HVAÐ STENDUR MIÐFLOKKURINN? 

Stefna Miðflokksins til heilla fyrir borgarbúa

Hvernig getur stjórnmálaflokkur og lífsskoðun flokksmanna nýst borgarbúum best eins og það birtist í stefnu flokksins?

 

Þetta ætti að vera lykilspurning til allra stjórnmálaflokka. Miðflokkurinn er ekki gamall flokkur en hann hefur mótað sér víðtæka og yfirgripsmikla stefnu. Mestu skiptir þó að flokkurinn er lausnamiðaður, velviljaður, hagsýnn og ráðdeildarsamur.

 

Stefna Miðflokksins gengur út á að horfa á lífið með augum einstaklingsins til að tryggja að allir fái notið sín um leið og lögð er áhersla á að tryggja tækifæri, öryggi og velferð hvers og eins. Í Miðflokknum birtast kostir hins borgaralega vestræna lýðræðis eins og það birtist í einstaklingshyggju en um leið með sterka áherslu á okkar sameiginlega velferðarkerfi og sameiginlegu sögu.

 

Enginn á að gleymast eða vera utanveltu en á sama tíma vill Miðflokkurinn leggja áherslu á fyrirhyggju, aðhaldsemi og skynsamlega úrlausn mála en þó umfram allt frelsi fólks til að skapa sér sína eigin framtíð. 

 

Við vitum það öll að fyrirhyggjulaus fjáraustur kemur alltaf í bakið á okkur síðar. Núverandi kynslóð getur ekki skilið allt eftir í rúst þegar kemur að fjármálum. Því horfum við á rekstur borgarinnar þannig að honum sé ætlað að hámarka lífshamingju borgarbúa innan þess ramma sem tekjur borgarinnar leyfa.

 

Við getum ekki leyft okkur að ganga alltaf út frá því að tekjur borgarinnar aukist sjálfkrafa því fjármunirnir koma alltaf að endingu úr vasa útsvars- og skattgreiðenda. Slík tilfærsla verður að stýrast af ráðdeild, skynsemi og virðingu fyrir vinnu fólks sem lætur þannig afrakstur erfiði síns af hendi. Við getum ekki endalaust hækkað gjöld og skyldur á borgarbúa, einfaldlega af því að okkur langar að sýna framkvæmdasemi borðaklippingamannsins. 

 

Hugsanlega er stærsta áskorun allra sem starfa við sveitastjórnarmál að vinna úr vonum og væntingum íbúanna þannig að lífshamingja sem flestra aukist. Það er hægt að gera með með margvíslegum hætti en mikilvægast af öllu er að hlusta á raddir borgarbúa og þá allra borgarbúa.

 

Fyrir börnin skiptir mestu að tryggja ánægjulega samvist við foreldra um leið tómstundir og frístundir barna eru innan seilingar. Til þess að börn og unglingar njóti sín sem best þarf borgin að standa við sínar skuldibindingar í dagvistun og skólamálum. Huga þarf að því að skapa börnum aðgang að íþróttastarfi og hreyfingu og styðja þannig við heilsu þeirra.

 

Borgin eins og önnur sveitarfélög ber ábyrgð á málefnum fatlaðra. Það er vandasöm og mikilvæg þjónusta sem þarf að vinna í samræmi við lög og skyldur en um leið af mannúð og virðingu. Fatlaðir eiga að fá tækifæri til að lifa í borginni á sínum forsendum og taka þátt í samfélaginu og þannig auðga það sem mest.  

 

Skipulag borgarinnar þarf að vera þannig að allir geti notið heilbrigðs umhverfis og þjónustu hennar. Tryggja þarf að samgöngur séu auðveldar, skilvirkar og heilsusamlegar. Fólk á að geta valið farakosti sem koma heim við þarfir hvers og eins og tryggja þarf að borgarbúar glati ekki stórum hlut ævi sinnar við það að ferðast á milli í dagsins önn. Enginn vill þurfa að eyða of löngum tíma í umferðinni, fjarri vinnu og ástvinum. Skipulag umferðamála verður að taka tillit til þarfa og vilja almennings en ekki stýrast í blindni af þörfum fyrir þéttingu og aukið byggingarmagn.    

Borg eins og Reykjavík þarf að bjóða upp á farsælt og kraftmikið atvinnulíf þar sem rótgróin starfsemi blandast nýsköpun og frumkvæði. Þjónustufyrirtæki borgarbúa verða að geta starfað innan borgarmarkanna í eðlilegum tengslum við samgöngur og borgarskipulag um leið og borgin styður við nýsköpun framtíðaratvinnugreina. Reykjavíkurborg hefur allar forsendur til að laða til sín atvinnulíf sem vill bjóða starfsmönnum sínum upp á áhugaverð og vel launuð störf sem geta staðið undir kröfum . Skattar og álögur á fyrirtæki innan borgarinnarbverða að taka mið af þessu, sem og útsvarsgreiðslur borgarbúa. 

 

Reykjavíkurborg á að tryggja íbúum sínum heilnæmt og hollusamt umhverfi. Umhverfismál á að reka eins og á góðu heimili, þar sem gætt er að hreinleika og heilbrigði.

 

Þannig á sorp- og úrgangslosun að vera eins og best gerist eftir ýtrustu kröfum. Um leið á borgin að gæta að því að fegra og bæta umhverfið borgarbúum til yndisauka. Það á að þrífa götur og torg og gæta að gróðri og efla skógrækt inna borgarmarkanna. Höfum hugfast að tré eru besta vörnin gegn svifryki auk þess sem þau bæta veðurskilyrði. Hrein og fögur torg gera betri borg.  

 

Allar þessar áherslur má finna í stefnu Miðflokksins og fyrir þeim hyggst ég berjast.

 

Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins í Reykjavík og fyrrverandi  sveitarstjóri. 

bottom of page