top of page

Er Reykjavíkurborg fjárhagslega sjálfbær?

,, Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum”.


Er Reykjavíkurborg fjárhagslega sjálfbær?

Fjárhagsleg sjálfbærni sveitarfélaga skiptir miklu máli bæði til lengri og skemmtri tíma. Það er forsenda þess að þau geti sinnt lögbundnum skyldum og haldið úti því þjónustustigi sem þau hafa markað sér fyrir íbúa og fyrirtæki.

Reykjavíkurborg sinnir þjónustu sem skiptir alla hópa samfélagsins máli, hvort sem það eru aldraðir, fatlaðir, eða aðrir sem þurfa á aðstoð að halda. Einnig þarf að tryggja þjónustu við fyrirtæki og sjá um að samgöngur séu í góðu standi og geti skapað forsendur fyrir framþróun Reykjavíkurborgar vegna fjölgunar íbúa og áætlaða breytingu á aldursamsetningu borgarbúa.


Í gr. 64 Sveitarstjórnarlaga nr. 138 / 2011 kemur fram að: ,, Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum”.

Í sömu lagagrein kemur fram að .,,heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum”.


Það er því við hæfi, eftir að hafa tekið ákvörðun um að gefa kost á mér sem oddviti Miðflokksins í Reykjavík, að rýna hvernig fjárhagsleg staða Reykjavíkurborgar er og hvort borgin sé ekki örugglega fjárhagslega sjálfbær til styttri sem lengri tíma. Fátt skiptir Reykvíkinga meiru.


Viðvörunarmerki

Samkvæmt ársreikningi Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020 eru tekjur samstæðunnar 191 milljarðar kr. en heildarskuldir 385 milljarðar. Heildarskuldir eru því langt yfir lögbundnu mörkum, eða 203% af reglulegum tekjum. Sú staðreynd er viðvörunarmerki um að eitthvað hafi misfarist í rekstri borgarinnar.

Einnig er rétt að geta þess fyrirvara sem Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi gerði við ársreikninginn fyrir árið 2020 að um ofmat væri að ræða á eign í Félagsbústöðum sem leiddi til þess að ársreikningurinn gæfi ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar. Hún væri í raun verri en ársreikningur sýnir.

Breytingin milli áranna 2020 og 2021 sýnir að heildarskuldir A og B Reykjavíkurborgar hækka til viðbótar um 27 milljarða króna og áætlun gerir ráð fyrir frekari skuldaaukningu um 11 milljarða í lok ársins 2022. Heildarskuldir eru þannig áætlaðar í lok ársins 2022 hvorki meira né minna en 423 milljarðar kr. Samkvæmt lántökuáætlun á að taka að láni 25 milljarða á árinu 2022.


Samkvæmt ofansögðu er ljóst að Reykjavíkurborg er ekki fjárhagslega sjálfbær og ber kjörnum borgarfulltrúm skylda til að bregðast við því með ábyrgð og af festu, einir og sér, eða í samvinnu við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga.


Borgin safnaði skuldum í góðærinu

Þjóðarbúið var vel í stakk búið til að takast á við þau efnahagslegu áhrif sem urðu vegna heimsfaraldursins því á árinu 2013 hóf ríkið að greiða niður skuldir. Á sama tíma hóf Reykjavíkurborg að safna skuldum. Því hafði borgin ekkert svigrúm til þess að mæta vandanum.


Fjármála- og efnahagsráðuneytið kynnti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á síðasta ári skýrslu sem unnin var af Hagstofu Íslands um áskoranir í opinberum fjármálum þar sem spáð er um áætlaða íbúafjölgun og þróun á aldurssamsetningu þjóðarinnar.


Þar er gert ráð fyrir fjölgun íbúa á landinu um 60.000 til ársins 2050 og fjölgun þeirra sem fara af vinnumarkaði vegna aldurs séu um 40.000. Jafnframt var bent á að útsvarstekjur sveitarfélaga myndu lækka með tímanum og kostnaður vegna þjónustu við aldraða myndi hækka töluvert, m.a. vegna fjölgunar hjúkrunarheimila.

Eftir kosningar í maí nk. þarf að verða nýtt upphaf sem fellst í því að viðurkenna stöðuna eins og hún er, finna leiðir til að lækka rekstarkostnað, auka tekjur eða selja eignir. Það þarf að gera án þess að skerða lögbundna þjónustu við íbúa og fyrirtæki borgarinnar.


Það er morgunljóst að ekki er hægt að breyta því sem liðið er, en okkur ber skylda til að taka á fjárhagslegri stöðu borgarinnar á næsta kjörtímabili og tryggja fjárhagslega sjálfbærni hennar.


Það er krefjandi verkefni að fara inn í rekstur Reykjavíkurborgar á þessari stundu en jafnframt spennandi.

Um leið og ég tók ákvörðun um framboð hófst tveggja mánaða atvinnuviðtal við borgarbúa og þann 14. maí nk. mun koma í ljós hvort eftirspurn sé eftir mínum starfskröfum við að taka á fjármálum borgarinnar og öðrum mikilvægum þjónustuþáttum borgarinnar sem hafa setið á hakanum.


Eitt brýnasta verkefnið er jafnframt að slá skjaldborg utan um það þjónustustig sem Reykjavíkurborg vill standa fyrir með hag borgarbúa og fyrirtækja að leiðarljósi.


Ég hlakka til að taka það atvinnuviðtal við borgarbúa á komandi vikum.


Ómar Már Jónsson

Frambjóðandi í 1. sæti Miðflokksins í Reykjavík.0 comments
bottom of page