top of page

Sprengjan í borginni!

  • Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að börnum yngri en 7 ára hefur fækkað um heil 7% í höfuðborginni frá árinu 2002, þ.e. á síðustu 20 árum.Þegar borgarstjóri og hans fulltrúar fullyrða að fjölgun starfsmanna um 2.000 manns á síðasta kjörtímabili sé m.a. vegna fjölgun barna á leikskólum er við hæfi að kanna hvað sé til í því.


Tölulegar staðreyndir eru besti mælikvarðinn á þróun hinna ýmsu þátta, hvort samræmi sé milli fjölgun starfsmanna hjá borginni og fjölgun barna á leikskólum í Reykjavík.

Þegar þetta er skoðað blasir við önnur mynd en borgarstjóri heldur fram.


Í þættinum Reykjavík síðdegis þann 3. mars síðastliðinn sagði formaður skóla og frístundaráðs, Skúli Helgason jafnframt að um sprengju væri að ræða í fjölgun barna í Reykjavík og við því sé verið að bregðast!


Í þættinum sagði Skúli orðrétt:

„Við erum að opna átta nýja leikskóla í ár, ótrúlega stórt skref og stærra skref en hér hefur sést síðan einhvern tímann á síðustu öld,“ sagði Skúli..


Þegar tölulegar staðreyndir eru skoðaðar kemur hins vegar í ljós að börnum yngri en 7 ára hefur fækkað um heil 7% í höfuðborginni frá árinu 2002, þ.e. á síðustu 20 árum. Á sama tíma hefur börnum fjölgað í nágrannasveitarfélögum.
Myndin sýnir fjölgun/fækkun barna á höfuðborgarsvæðinu


Börnum fækkar en borgarstjóri og formaður skóla, og frístundaráðs halda því fram að verið sé að opna nýja leikskóla vegna sprengju í fjölgun leikskólabarna.

Nú mætti spyrja, hvort að leikskólum hafi verið lokað vegna fækkunar barna á árunum 2014 til 2018 og verið sé að opna þá aftur?

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar, árið 2018, var líka talað um skort á leikskólaplássum. Á því árabili, frá 2014 til 2018, fækkaði börnum mikið eða um 12%.


Tölulegar staðreyndir sýna að börnum undir 7 ára aldri fjölgaði aðeins um 1% frá síðustu kosningum. Er það sprengjan sem formaður skóla- og frístundaráðs átti við?


Hér má sjá að um uppsafnaðan vanda er að ræða, sem allt of seint er brugðist við.

Það er vissulega skiljanlegt, að rétt fyrir kosningar vill borgarstjórnar meirihlutinn laga það sem úrskeiðis hefur farið hjá borginni síðastliðin 8 ár og það á akkúrat að gerast núna, rétt fyrir og strax eftir kosningar.


Ungar barnafjölskyldur eru að flytja úr borginni! Það er augljóst að hin venjulega barnafjölskylda er að flytja úr Reykavík. Hún er að flytja í nágrannasveitarfélögin. Ástæðurnar eru nokkrar en allar á herðum borgarinnar að leysa úr.


Ástæðurnar má rekja til umferðartafa, skorts á íbúðarhúsnæði og biðlista barna á leikskóla eins undarlegt og það hljómar. Borgarstjórn hefur þannig fallið á prófinu, við að sýna með fyrirhyggjusemi, að rýna í mannfjöldaþróun og lýðfræðilegar breytingar í borginni. Hún er ekki að sinna sínu hlutverki, að: ,,fylgjast með þörfum íbúa í sveitarfélaginu” eins og segir á vef stjórnarráðssins um lögmæt verkefni sveitarfélaga.


Börnum á leikskólaaldri yngri en 6 ára í Reykjavík fækkaði um heil 12% frá 2014 til 2018 en fjölgaði aðeins um 1% frá 2018 til 2022.


Er hægt að segja að um sprengju sé að ræða eins og talsmenn borgarinnar halda fram?

Ég mun beita mér fyrir því að borgin sinni betur sínu þjónustuhlutverki gagnvart ungum fjölskyldum svo að þær geti litið á borgina sína sem vænlegan kost í ferðalagi lífsins með þeirra hag að leiðarljósi.

Ég mun beita mér fyrir því að sýnd verði meiri og áreiðanlegri fyrirhyggja þegar kemur að því að spá fyrir um lýðfræðilega þróun og íbúasamsetningu í Reykjavík og að borgin bregðast við áður en í óefni er komið.


Ég mun beita mér fyrir því að ungar barnafjölskyldur líti á borgina sem besta og áreiðanlegasta kostinn til að vaxa upp í, bæði í leik og starfi.

Við getum gert svo miklu betur!


Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins til borgarstjórar og fyrrverandi sveitarstjóri.

Setjum X við M þann 14. maí nk.

0 comments

Comentários


bottom of page