Ungu fólki úthýst úr grónum hverfum
Mikilvægasta kjarabót til Reykvíkinga er að leysa íbúðamarkaðinn úr þeirri sjálfheldu sem hann er í.

Ungu fólki úthýst úr grónum hverfum
Hverfablað- Miðborg og Hlíðar 4. tb. 2022.
Í öllum hverfum borgarinnar finna íbúar fyrir þeim vanda sem íbúðamarkaðurinn í Reykjavík er staddur. Íbúðir í grónum hverfum hækka það mikið að ungt fólk á ekki möguleika á að kaupa í gamla hverfinu sínu eins og svo margir vilja. Það á ekki síst við um miðborgina og Hlíðarhverfi.
Þéttingastefnan nýtist ekki, nýju íbúðirnar eru svo dýrar enda lóðaverði haldið í hámarki. Nú síðast hefur borgarstjórn gripið til þess ráðs að gefa óljós loforð um að óhagnaðardrifnum fasteignafélögum verði úthlutað lóðum á þeim umferðastokkum sem stendur nú til að gera.
Mikilvægasta kjarabót til Reykvíkinga er að leysa íbúðamarkaðinn úr þeirri sjálfheldu sem hann er í. Jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði mun sjálfkrafa draga úr gengdarlausum verðhækkunum á fasteignamarkaði. Það er því eitt stærsta verkefni nýrrar borgarstjórnar að snúa við þeirri stöðu og setja íbúa og fyrirtæki í fyrsta sæti en ekki fjárhagsþörf borgarinnar.
Reykjavíkurborg á nægt land til að byggja á.
Reykjavík býr við þá einstöku stöðu að eiga mikið land til uppbyggingar, eða um 17.000 hektara af óbyggðu landi sem nær frá sjávarmáli upp í 120 metra hæð. Ætla má a.m.k. helmingur af því svæði henti vel til að byggja á eða um 8.500 hektarar.
Það er ekki óeðlilegt að þétta byggð innan borgarmarkanna en það verður að gerast með skynsömum og yfirveguðum hætti, ekki þannig að fasteignamarkaðurinn sé lagður í rúst og ungu fólki gert ókleyft að koma sér þaki yfir höfuðið á eigin forsendum.
Við þurfum að stórauka áherslu á að byggja á dreifðari svæðum og skapa eðlilegt ástand milli eftirspurnar og framboðs, bæði hjá þeim sem vilja kaupa fasteign og ekki síður hjá þeim sem kjósa að vera á leigumarkaði.
Setjum X við M þann 14. maí nk.
Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins til borgarstjórar og fyrrverandi sveitarstjóri.