top of page

Þjónustu­borgin Reykja­vík – við getum gert betur

Reykjavíkurborg á að setja sér háleit markmið. Reykjavík á að gera samanburðarhæfar þjónustukannanir og bera sig saman við þá bestu í Evrópu og setja sér það markmið að gera betur.



Fréttablaðið, 14. apríl 2022


Reykjavíkurborg hefur skyldum að gegna gagnvart borgarbúum og fyrirtækjum í borginni. Ekki aðeins að veita þá þjónustu sem borginni þóknast að veita, heldur ber henni skylda til að veita lögbundna þjónustu samkvæmt sveitarstjórnarlögum.


Það sem skiptir borgarbúa mestu og við höfum sterkastar skoðanir á eru m.a. þjónusta grunnskóla, leikskóla, snjómokstur, sorpþjónusta, málefni aldraðra, málefni fatlaðra, félagsleg þjónusta, þ.m.t. húsnæðisþörf viðkvæmari hópa og stuðningsþjónusta ýmiss konar.


Á því kjörtímabili sem fer nú senn að ljúka er áhugavert að rýna hvernig borgin hefur verið að standa sig í þjónustuhlutverkinu.


Einn besti mælikvarðinn er þjónustukannanir, viðhorfskannanir meðal ólíkra hópa borgarinnar, sem sýna hvar borgin okkar er að standa sig vel og hvað má bæta.

Einnig er mikilvægt að Reykjavíkurborg setji sér þjónustustefnu, markmið hvernig hún vilji standa sig.


Það er skilvirkasta leiðin, að bera síðan saman þjónustustefnu borgarinnar við niðurstöður þjónustukannana og sjá hvað má bæta. Slíkar kannanir á að gera árlega, bæði meðal borgarbúa og fyrirtækja.

Berum okkur saman við þá bestu

Reykjavíkurborg á að setja sér háleit markmið. Reykjavík á að gera samanburðarhæfar þjónustukannanir og bera sig saman við þá sem eru að standa sig vel. Markmið borgarinnar á að vera að standa sig best á Norðurlöndunum í þjónustu gagnvart öllum hópum samfélagsins, ekkert minna!


Starfsmönnum borgarinnar hefur fjölgað um 20% síðustu 4 ár, það jafngildir um 500 nýjum starfsmönnum á ári þannig að ætla mætti að borgin sé að standa sig afburðavel í að þjónusta íbúa og fyrirtæki.


Borgin fær falleinkunn

Í þjónustukönnun sem Gallup framkvæmdi í janúar 2018 kom fram að Reykjavíkurborg mælist langneðst í þjónustukönnun í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Þegar kemur að þjónustu bæði leikskóla og grunnskóla, þjónustu við eldri borgara og þjónustu við fatlaða fær borgin falleinkunn.

Innan við 40% borgarbúa eru ánægð með heildarþjónustu borgarinnar gagnvart borgarbúum.

Þjónustukannanir Gallup voru gerðar meðal sveitarfélaga frá árinu 2008 til 2018, en eftir niðurstöðurnar árið 2018 dró Reykjavíkurborg sig út, hafnaði frekari samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.

Reykjavíkurborg fékk síðan fyrirtækið Maskínu til að gera þjónustukönnun meðal borgarbúa árið 2019 þar sem að niðurstaðan var sú sama. Innan við 40% borgarbúa voru ánægðir með þjónustu borgarinnar.


Eftir þá könnun hefur Reykjavíkurborg ekki tekið þátt í samanburðarþjónustukönnunum meðal borgarbúa.


Ég mun beita mér fyrir því að Reykjavíkurborg setji sér virka þjónustustefnu þar sem áherslur þjónustu borgarinnar gagnvart íbúum og fyrirtækjum verða skýrar og virkar. Jafnframt að þjónustukannanir verði gerðar árlega meðal íbúa og fyrirtækja í Reykjavík og niðurstöður nýttar til að bæta þjónustu borgarinnar.


Ég mun einnig beita mér fyrir því að koma á samstarfi við aðrar borgir á Norðurlöndunum þar sem við berum okkur saman við þá bestu, með það að leiðarljósi að gera enn betur.


Ómar Már Jónsson, oddviti Miðflokksins til borgarstjórar og fyrrverandi sveitarstjóri.

Setjum X við M þann 14. maí nk.

0 comments
bottom of page